settings icon
share icon
Spurning

Hvað kennir Biblían um Heilaga þrenningu?

Svar


Það erfiðasta við hugmyndina um Heilaga þrenningu er, að engin leið er að skýra hana. Heilög þrenning er hugmynd sem mannlegum huga er um megn að skilja, hvað þá útskýra. Guð er óendanlega meiri og stærri en við erum. Þess vegna ættum við ekki að gera okkur vonir um að skilja Hann. Biblían kennir okkur að Faðirinn sé Guð, Jesús sé Guð og Heilagur andi sé Guð. Biblían kennir okkur líka, að aðeins sé einn Guð. Þó við getum skilið ákveðna þætti sambandsins milli persóna Heilagrar þrenningar, þá er það þegar allt kemur til alls óskiljanlegt mennskum huga. Það merkir samt ekki, að það sé ekki sannleikanum samkvæmt eða ekki byggt á boðskap Biblíunnar.

Við skulum hafa í huga, þegar við fjöllum um þetta efni, að orðið „Þrenning“ kemur ekki fyrir í Biblíunni. Þetta hugtak er notað til að reyna að lýsa fyrirbærinu þríeinn Guð, þeirri staðreynd að Guð samanstendur af 3 eilífum og samlífum persónum. Höfum í huga að ekki er ýjað að þremur guðum. Heilög þrenning er einn Guð sem samanstendur af þremur persónum. Það er ekkert rangt við að nota orðið „Þrenning“, þó það komi ekki fyrir í Biblíunni. Auðveldara er að segja „Þrenning“ heldur en „3 eilífar og samlífar persónur sem mynda 1 Guð“. Ef þetta veldur vandræðum, þá skuluð þið hugleiða eftirfarandi: orðið afi kemur ekki fyrir í Biblíunni. Samt vitum við að í Biblíunni voru afar. Abraham var afi Jakobs. Svo við skulum ekki láta orðið „Þrenning“ trufla okkur. Það sem öllu máli skiptir er að hugtakið sem orðið „Þrenning“ táknar er fyrir hendi í Ritningunni. Að þessu sögðu látum við vers úr Biblíunni tala sínu máli.

1) Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn! 5Mós 6:4; 1 Kor 84; Gal 3:20; 1Tím 2:5.

2) Heilög þrenning samanstendur af þremur persónum: 1Mós 1:1; 1:26; 3:22; 11:7; Jes 6:8; 48:16; 61:11; Matt 3:16-17; 28:19; 2 Kor 13:14. Varðandi texta Gamla testamentis er þekking á hebresku gagnlegi 1Mós 1:1 er notuð fleirtala nafnorðsins „Elohim“ Í 1Mós 1:26; 3:22; 11;17 og Jes 6:8 er notuð fleirtala fornafnsins „okkur“. Að „Elohim“ og „okkur“ vísi til fleiri en tveggja er hafið yfir allan vafa. Í íslensku eru einungis tvær myndir, eintala og fleirtala. Í hebresku eru þrjár myndir: eintala, tvítala og fleirtala. Tvítala vísar að sjálfsögðu til tveggja. Í hebresku er tvítölumyndin notuð um hluti sem koma í pörum: augu, eyru, hendur. Orðið „Elohim“ og fornafnið „okkur“ eru fleirtölumyndir, merkja fleiri en tvo eða tvennt – hljóta því að vísa til þriggja eða fleiri (Föður, Sonar og Heilags anda).

Í Jesaja 48:16 og 61:1 er Sonur að tala og vísar til Föðurins og Heilags anda. Berið saman Jesaja 61:1 og Lúkas 4:14-19 til aða ganga úr skugga um, að Sonurinn er að tala. Matteus 3:16-17 lýsir skírn Jesú. Þar sést Guð Helgur andi koma yfir Guð Soninn, meðan Guð Faðir lýsir yfir velþóknun sinni. Matteus 28:19 og Seinna Korintubréf 13:14 eru dæmi um þrjár aðskildar persónur Þrenningarinnar.

3) Persónur Þrenningarinnar eru greindar hver frá annarri víða í Ritningunni. Í Gamla testamenti er gerður greinarmunur á DROTTNI og Drottni (1M 19:24; Hós 1:4). DROTTINN á „Son“ (Slm 2: 7, 12, Ok 30:2-4). Andi er greindur frá DROTTNI (4Mós 27:18) og frá „Guði“ (Slm 51:10-12). Guð Sonurinn er greindur frá Guði Föðurnum (Slm 45:6-7; Heb 1:8-9). Í Nýja testamenti talar Jesús í Jóhannesarguðspjalli 14:16-17 um að biðja Föðurinn að senda annan hjálpara, Heilagan anda. Þetta sýnir að Jesús taldi sig hvorki vera Faðir né Heilagur andi. Höfum líka í huga öll þau skipti í guðspjöllunum þegar Jesús talaði við Föðurinn. Var hann að tala við sjálfan sig? Nei. Hann var að tala við aðra persónu Þrenningarinnar – Föðurinn.

4) Sérhver meðlimur Þrenningarinnar er Guð: Faðirinn er Guð (Jóh 6:27; Róm 1:7; 1 Pét 1:2). Sonurinn er Guð (Jóh 1:1,14; Róm 9:5; Kól 2:9; Heb 1:8, 1 Jóh 5:20). Heilagur andi er Guð (P 5:3-4; 1 Kor 3:6). Sá sem dvelst innra með trúuðum er Heilagur andi (Róm 8:9; Jóh 14:16-17; P 2:1-4).

5) Undirgefni innan Þrenningarinnar: Ritningin sýnir að Heilagur andi er undirgefinn Föður og Syni, og Sonurinn undirgefinn Föðurnum. Þetta eru innri tengsl og afneita ekki guðdómi neinnar persónu Þrenningarinnar. Þetta er einfaldlega svið sem takmarkaðir hugir okkar fá ekki skilið varðandi takmarkalausan Guðdóminn. Varðandi Soninn sjá: Lúk 22:42; Jóh 5:36; Jóh 20:21; 1Jóh 4:14. Varðandi Heilagan anda sjá: Jóh 14:16; 14:26; 15:26; 16.7, og einkanlega Jóh 16:13-14.

6) Hlutverk einstakra meðlima Þrenningarinnar: Faðirinn er endanleg orsök og uppspretta 1) alheimsins (1Kor 8:6, Jóh 1:3; Kól 1:16-17), 2) guðlegrar opinberunar (Opb 1:1); 3) hjálpræðis (Jóh 3:16-17), og mannlegra athafna Jesú (Jóh 5:17; 14:10). Faðirinn á frumkvæði að öllu ofantöldu.

Sonurinn er útsendarinn sem leysir af hendi eftirfarandi verkefni Föðurins: 1) sköpun og viðhald alheimsins (1Kor 8:6; Kól 1:16-17); 2) guðlega opinberun (Jóh 1:1, Matt 11:27; Jóh 16:12-15; Opb 1:1); og 3) endurlausn mannkyns (2Kor 5:19; Matt 1;21; Jóh 4;42). Faðirinn vinnur öll þessi verk fyrir mátt Heilags anda.

Engin af alþýðlegum hugmyndum um Heilaga þrenningu nær máli. Eggið (eða eplið) nægir ekki til samanburðar, þar eð skurnin, hvítan og rauðan eru hlutar af egginu, en ekki eggið sjálft. Faðirinn, Sonurinn og Heilagur andi eru ekki hlutar Guðs, því hver og einn þeirra er Guð. Líkingin við vatnið er örlítið nær lagi, en nægir samt ekki til að gera rétta grein fyrir Þrenningunni. Vökvi, gufa og ís eru myndir vatns. Faðirinn, Sonurinn og Heilagur andi eru ekki myndir Guðs, heldur er hver þeirra Guð. Þess vegna eru þessar skýringarmyndir ekki nákvæmar, þó þær kunni að gefa okkur hugmynd um Þrenninguna. Í stað þess að einblína á Heilaga þrenningu er ráð að einbeita sér að mikilleik Guðs og eðli hans, sem er ómælanlega æðra eðli okkar. „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans! Hver hefur þekkt huga Drottins? Eða hver hefur verið ráðgjafi hans?“ (Róm 11:33-34).

English



Til baka á heimasíðuna á íslensku

Hvað kennir Biblían um Heilaga þrenningu?
Facebook icon Twitter icon Pinterest icon Email icon
© Copyright Got Questions Ministries