settings icon
share icon
Spurning

Er Biblían raunverulega Orð Guðs?

Svar


Svar okkar við þessari spurningu mun ekki aðeins ráða úrslitum um, hvernig við lítum á Biblíuna og mikilvægi hennar í lífi okkar, heldur mun það líka endanlega hafa áhrif á eilífan farnað okkar. Sé Biblían raunverulega Orð Guðs, þá ættum við að láta okkur annt um hana, lesa hana, hlýða henni og endanlega treysta henni. Sé Biblían Orð Guðs, þá jafngildir það afneitun á Guði sjálfum að vísa henni frá sér.

Sú staðreynd að Guð gaf okkur Biblíuna er vottur og dæmi um ást hans á okkur. Orðið „opinberun” merkir einfaldlega að Guð birti mannkyni hvernig hann er og hvernig við getum átt rétt samskipti við hann. Þetta eru hlutir sem við hefðum ekki getað haft hugmynd um, ef Guð hefði ekki með guðdómlegum hætti opinberað þá í Biblíunni. Enda þótt opinberun Guðs á sjálfum sér í Biblíunni hafi verið veitt stig af stigi á 1500 ára tímabili, þá hefur hún jafnan haft að geyma allt sem maðurinn þurfti að vita um Guð til að vera í réttu sambandi við hann. Sé Biblían sannanleg Orð Guðs, þá er hún endanleg heimild um allt sem snýr að trú, tilbeiðslu og siðgæði.

Spurningin sem við verðum að leggja fyrir okkur sjálf er þessi: Hvernig getum við vitað að Biblían sé Guðsorð en ekki bara einhver góð bók? Hvað er sérstakt við Biblíuna og greinir hana frá öllum öðrum trúarritum sem samin hafa verið? Er nokkur sönnun fyrir því að Biblían sé raunverulega Orð Guðs? Það eru slíkar spurningar sem við verðum að velta fyrir okkur, ef við viljum í alvöru ganga úr skugga um þá kröfu Biblíunnar, að hún sé ómengað Orð Guðs, innblásið heilögum anda og algerlega fullnægjandi til uppfræðslu um allt sem varðar trú og tilbeiðslu.

Á því getur ekki leikið neinn vafi, að Biblían gerir tilkall til að vera sjálft Guðsorðið. Þetta kemur greinilega fram í ritningarstöðum eins og Seinna Tímóteusabréfi 3:15-17 þar sem segir: „Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú. Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.”

Til að svara þessum spurningum verðum við að líta jafnt á innri sem ytri röksemdir fyrir því að Biblían sé í rauninni Orð Guðs. Innri rökin eru vitnisburður Biblíunnar sjálfrar um guðdómlegan uppruna sinn. Ein fyrsta innri röksemd fyrir því að Biblían sé sannlega Guðsorð felst í heildarsvip hennar. Enda þótt hún samanstandi af sextíu og sex sjálfstæðum bókum, sömdum á þremur meginlöndum, á þremur ólíkum tungum, á um það bil 1500 árum, af rúmlega 40 höfundum (sem komu úr mörgum starfsgreinum), þá er Biblían ein samfelld heild frá upphafi til loka án mótsagna eða ósamkvæmni. Þessi heildarsvipur er einstæður og til vitnis um guðlegan uppruna orðanna, með því Guð blés mönnum í brjóst að skrá hans eigin orð.

Önnur innri röksemd, sem gefur til kynna að Biblían sé raunverulega Guðsorð, birtist í nákvæmum spádómunum sem finna má á síðum hennar. Biblían hefur að geyma hundruð nákvæmra spádóma sem tengjast framtíð einstakra þjóða, þeirra á meðal Ísraela, framtíð tiltekinna borga, framtíð mannkyns, og komu manns sem verða mundi Messías, frelsari jafnt Ísraela og allra annarra sem tryðu á hann. Ólíkt spádómum, sem finna má í öðrum trúarritum eða kenndir eru við Nostradamus, eru spádómar Biblíunnar einstaklega nákvæmir og hafa ævinlega reynst sannir. Í Gamla testamentinu einu eru yfir þrjú hundruð spádómar um Jesúm Krist. Ekki einasta var frá því sagt, hvar hann mundi fæðast og af hvaða ættbálki, heldur einnig hvernig hann dæi og að hann mundi rísa upp aftur á þriðja degi. Það er einfaldlega engin skynsamleg leið til að skýra spádóma Biblíunnar sem rættust öðruvísi en svo, að þeir eigi sér guðlegan uppruna. Ekkert annað trúarrit býr yfir jafn víðtækum og sértækum spádómum eins og Biblían.

Þriðja innri röksemd fyrir guðlegum uppruna Biblíunnar birtist í einstæðu áhrifavaldi hennar. Enda þótt þessi röksemd sé huglægari en fyrri tvær röksemdir er hún engu síður máttugur vitnisburður um guðdómlegan uppruna Biblíunnar. Biblían býr yfir einstæðu áhrifavaldi sem greinir hana frá öllum öðrum bókum sem samdar hafa verið frá upphafi vega. Áhrifavaldið sést best á því, hvernig líf ótölulegra einstaklinga hefur tekið gertækum breytingum fyrir lestur Biblíunnar. Eiturlyfjaneytendur hafa læknast við lesturinn, samkynhneigðir hafa frelsast fyrir tilverknað hennar, einstæðingar og slæpingjar hafa gerbreyst og forhertir glæpamenn tekið sinnaskiptum fyrir atbeina hennar, syndarar verið ávítaðir af henni, og hatri hefur verið snúið í elsku við lestur hennar. Biblían býr vissulega yfir virkum og umskapandi mætti sem er einugis mögulegur vegna þess að hún er raunverulega Orð Guðs.

Auk innri röksemda fyrir því, að Biblían sé raunverulega Guðsorð, eru líka fyrir hendi ytri röksemdir sem gefa það sama til kynna. Ein þessara röksemda er saga Biblíunnar. Þar eð Biblían greinir frá sögulegum atburðum, er hægt að sannprófa trúverðugleik hennar og nákvæmni eins og annarra sögulegra heimilda. Bæði með fornleifarannsóknum og könnun annarra skráðra heimilda hafa hvað eftir annað verið færðar sönnur á sannleiksgildi og skekkjuleysi sögulegra frásagna í Biblíunni. Ef satt skal segja benda röksemdir fornleifarannsókna og handrita til þess, að Biblían sé best studd skjallegum og áþreifanlegum gögnum allra rita fornaldar. Sú staðreynd að Biblían greinir rétt og nákvæmlega frá atburðum, sem hægt er að færa sögulegar sönnur á, er máttug vísbending um sannleiksgildi hennar, þegar hún fjallar um trúarleg efni eða kenningar, og á sinn þátt í að renna stoðum undir þá staðhæfingu að hún sé sannkallað Orð Guðs.

Önnur ytri röksemd fyrir því, að Biblían sé raunverulega Guðsorð, er ráðvendni og heilindi hinna mennsku höfunda. Eins og fyrr getur, notaði Guð menn úr mörgum stéttum samfélagsins til að skrá Orð sín til okkar. Þegar lífsferlar þessara manna eru kannaðir, er engin haldbær ástæða til að álíta að þeir hafi ekki verið heiðarlegir og einlægir. Þegar kannaðir eru æviferlar þeirra og sú staðreynd að þeir voru fúsir til að deyja (einatt kvalafullum dauðdögum) fyrir það sem þeir trúðu á, verður fljótlega ljóst að þessir venjulegu en heiðvirðu menn trúðu því fastlega að Guð hefði talað til þeirra. Mennirnir sem skráðu Nýja testamentið og mörg hundruð annarra trúmanna (Fyrra Korintubréf 15:6) vissu um sannleik boðskapar síns, vegna þess að þeir höfðu séð og átt samneyti við Jesúm Krist eftir að hann reis upp frá dauðum. Ummyndunin að sjá hinn upprisna Krist hafði gertæk áhrif á þessa menn. Þeir komu úr ógnvænlegum felum og voru fúsir til að deyja fyrir boðskapinn sem Guð hafði opinberað þeim. Líf þeirra og dauði eru til vitnis um þá staðreynd, að Biblían er raunverulega Guðsorð.

Síðasta ytri röksemd fyrir því að Biblían sé raunverulega Orð Guðs er varanleiki hennar. Vegna mikilvægis síns og tilkallsins til að vera sjálft Orð Guðs hefur Biblían orðið fyrir heiftarlegri árásum og tilraunum til að eyða henni en nokkur önnur bók í sögunni. Allt frá fyrri keisurum Rómar, eins og Diocletianusi, til einræðisherra kommúnista og síðan guðleysingja og efahyggjumanna samtímans hefur Biblían staðist og enst lengur en allir þeir, sem réðust gegn henni, og er enn sem fyrr mest útgefna bók veraldar.

Í aldanna rás hafa efasemdamenn litið á Biblíuna sem goðsögulegt rit, en fornleifafræðin hefur staðfest sögulegan grunn hennar. Andstæðingar hafa ráðist gegn kenningum hennar og stimplað þær frumstæðar og úreltar, en siðfæðileg og lögfræðileg hugtök hennar og kenningar hafa haft jákvæð áhrif á samfélög og menningarsvæði um heim allan. Hún verður enn fyrir árásum vísinda, sálarfræði og pólitískra hreyfinga, en er samt jafn sönn og tímabær eins og hún var þegar hún var fyrst skráð. Hún er bók sem hefur umbreytt ótölulegum mannslífum og menningarstraumum á liðnum 2000 árum. Hvernig svo sem andstæðingar Biblíunnar ráðast á hana, skemma og ófrægja, þá er hún alveg jafn öflug, jafn sönn og jafn tímabær eftir árásirnar eins og fyrir þær. Nákvæmnin sem varðveist hefur, þrátt fyrir allar tilraunir til að afbaka, ráðast gegn eða skemma hana, er mælskur vitnisburður um þá staðreynd að Biblían er í sannleika Orð Guðs. Það ætti ekki að koma okkur á óvart, að hvernig sem Biblían er rægð og afflutt er hún ævinlega óbreytt og ósködduð. Þegar allt kemur til alls sagði Jesús: „Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða” (Markús 13:31). Þegar litið hefur verið á helstu röksemdir og sönnunargögn, getum við með góðri samvisku sagt: „Já, Biblían er sannarlega Guðsorð.”

English



Til baka á heimasíðuna á íslensku

Er Biblían raunverulega Orð Guðs?
Facebook icon Twitter icon Pinterest icon Email icon
© Copyright Got Questions Ministries